143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir þinginu er í samræmi við stjórnarsáttmálann og stefnu stjórnarflokkanna beggja um að það þjóni hagsmunum okkar Íslendinga best að staðsetja okkur utan Evrópusambandsins og byggja samstarf okkar við Evrópuríkin á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ríkisstjórnin hlaut að þurfa að taka afstöðu til þess með hvaða hætti ætti að bregðast við þeirri stöðu sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig, þ.e. að hafa sett af stað aðildarviðræður en ekki náð að ljúka þeim á kjörtímabilinu þrátt fyrir góðan vilja annars stjórnarflokksins.

Það er ástæða til að rifja hér upp, í tilefni af ítrekuðum ummælum um áhuga ýmissa þingmanna í stjórnarandstöðu á því að leita þjóðarviljans í þessu máli, að þegar aðildarumsóknin var send inn til Evrópusambandsins á árinu 2009 mældist í skoðanakönnunum mjög ríkur vilji meðal þjóðarinnar til að fá að segja álit sitt á þeirri ráðagerð. En það var þannig á þeim tíma að 76,3% þjóðarinnar höfðu áhuga á því að fá að greiða atkvæði um það hvort senda ætti inn viðkomandi aðildarumsókn. Því var hafnað hér af meiri hluta þingsins.

Við höfum síðan í millitíðinni og reyndar síðast í dag fengið fregnir af því hvernig það atvikaðist í stjórnarsamstarfinu á þeim tíma að sú niðurstaða var fengin, en það eru mjög skrautlegar lýsingar. Ég bendi mönnum á að lesa skrif fyrrverandi ráðherra úr þeirri ríkisstjórn, Jóns Bjarnasonar, eins og þau birtast í dag. (Gripið fram í.) Ég heyri þau viðbrögð hér úr þingsal að það séu ekki traustar heimildir, enda var ekki við öðrum að búast en að menn vildu ekki kannast við það sem þar segir vegna þess að það eru eflaust mjög óþægileg sannindi (Gripið fram í.) sem þar birtast. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Ég heyri mikið líf í þingsal …

(Forseti (ValG): Ég ætla að biðja þingmenn að gefa hljóð í salnum.) (Gripið fram í.)

Ef ég mætti halda áfram, frú forseti, get ég ekki annað en bent á þá staðreynd að það var á árinu 2009 sem margir þeirra sem hér hafa tekið til máls og lýst miklum áhuga á að leita til þjóðarinnar með þetta álitamál höfnuðu því að leita til þjóðarinnar þegar svona ríkur vilji var til þess. Meira en þrír af hverjum fjórum Íslendingum vildu fá málið til þjóðaratkvæðagreiðslu, en því var hafnað.

Ég verð líka að benda á að fjölmörg tækifæri gáfust á síðasta kjörtímabili til að leita til þjóðarinnar með hin ýmsu mál, eins og Icesave-samningana, en það var ekki nóg með að margir hinna sömu hafi hafnað því hér í þingsal heldur endaði það allt saman á því að forusta ríkisstjórnar þess tíma hvatti fólk beinlínis til að mæta ekki á kjörstað. Það gekk svo langt á því kjörtímabili. Þessu þurfti ég bara að koma að og ætla ekki að eyða frekari tíma í það. Þetta man fólk. (Gripið fram í.)

Síðan varðandi helstu ástæður þess að aðildarumsóknin getur ekki verið virk og ríkisstjórnin leggur til að hún sé dregin til baka. Í fyrsta lagi er það stefna ríkisstjórnarinnar að halda sig utan Evrópusambandsins. Þess vegna getur ríkisstjórnin ekki haft það á stefnuskrá sinni að klára aðildarviðræður, það er ómögulegt. Það er ekki hægt.

Ég heyri menn hrista hausinn yfir því, fussa og sveia … (Gripið fram í: Heyrirðu menn hrista hausinn?) Ég heyri menn fussa og sveia og ég sé þá hrista hausinn — æ, ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort tíma mínum er vel varið hér í ræðustól. Það er búið að kalla mikið eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins komi hingað en hann virðist ekki eiga að fá tíma til þess að koma frá sér þeim skilaboðum sem hann ætlar að flytja. Þannig er ástandið hér á stjórnarandstöðunni, hún þolir ekki að sitja undir rökræðum um þetta mál.

(Forseti (ValG): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða það að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er í stólnum.)

Það er eiginlega ótrúlegt að hlusta á þá sem báru ábyrgð á aðildarviðræðunum hér síðustu fjögur árin hrista hausinn, hlusta á þetta fólk býsnast yfir því að það þurfi að vera til staðar pólitískur stuðningur á þingi og í ríkisstjórn við að ljúka aðildarviðræðunum. Ég veit auðvitað að þetta fólk veit miklu betur en að tala svona. Það er hins vegar allt annað mál en það hvort menn treysta sér til að fylgja niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi hún farið fram.

Nú hefur engin slík þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram og menn spyrja: Hvers vegna efnir þessi ríkisstjórn ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið? Og sannarlega var talað um það hér bæði fyrir kosningar, í tengslum við ríkisstjórnarmyndunina og eftir hana. Það kemur enn til álita að gera það. Það liggur í þeim orðum að málið komi til skoðunar í nefnd. Það er enginn sérstakur ásetningur þessarar ríkisstjórnar að halda málinu frá þjóðinni en það er hins vegar hluti af þingsályktunartillögunni að við vissar aðstæður sé rétt að leita til þjóðarinnar.

Svo vil ég gera mjög skýran greinarmun á tvennu, annars vegar því að bera það mál undir þjóðina sem hér er til umræðu í þinginu, að draga aðildarumsóknina til baka, og hins vegar því að spyrja þjóðina hvort nú sé ekki góður tími til að ljúka aðildarviðræðunum. Þetta eru tveir ólíkir hlutir. Það er á dagskrá þingsins núna að draga aðildarumsóknina til baka. Mér finnst að í nefndinni eigi að ræða hvort bera eigi þá spurningu undir þjóðina og þá kröfu sem upp er komin í þjóðfélaginu í tilefni þessa máls. Það finnst mér að eigi að vera verkefni utanríkismálanefndar.

Ég er hins vegar ekki sammála því sem margir telja að sé skynsamlegt að gera núna, að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hluti sem ríkisstjórnin hefur ekki á dagskrá. Það er allt annað mál. Það er allt annars eðlis að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu af þeim toga og í því liggur munurinn að þá værum við annars vegar að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði þjóðarinnar þar sem þjóðin kallar eftir því að eitthvert mál sé sett á dagskrá sem ekki er verið að ræða og enginn meiri hluti er fyrir á þinginu, og svo því sem við þekkjum á síðari árum þar sem ákvarðanir þingsins ganga til staðfestingar þjóðarinnar, eins og menn muna á síðasta kjörtímabili að gerðist á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Á þessu tvennu er grundvallarmunur og þegar menn vísa í orð mín og segja mig hafa lofað því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem við höfum ekki ætlað að gera eru menn einfaldlega að oftúlka orð mín. (Gripið fram í: Ha?) Menn eru að oftúlka mín orð þegar þeir segja að ég hafi galopnað fyrir hvers kyns þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. (Gripið fram í.) Það er bara rangt. Það er rangt. Hins vegar talaði ég um það fyrir og eftir kosningar að mér þætti eðlilegt að þjóðin gæti átt aðkomu að þeirri ákvörðun sem yrði tekin hér á þinginu.

Nú kunna hv. þingmenn að vilja blanda þessu tvennu saman og segja þetta vera útúrsnúninga og eitthvað flókið. En þetta er meðal þeirra grundvallaratriða sem verið var að ræða í stjórnlagaráði og tengist þeim breytingum á stjórnarskránni sem við höfum verið að fjalla um á undanförnum árum. Þessu tvennu verður ekki blandað saman og sagt vera einn og sama hlutinn. Það bara er ekki þannig.

En við erum að ljúka hér á næstu dögum væntanlega, kannski í nótt eða á morgun, á næstu dögum, fyrri umr. um þessa þingsályktunartillögu og það er augljóst að hún þarf að fá vandlega skoðun í nefnd. Þar hljóta að koma til skoðunar þær hugmyndir sem komið hafa fram og ég tek eftir því að sumir þingflokkar á Alþingi tefla fram hugmyndum um að setja aðildarviðræðurnar í frost. Ég lít þannig á að þeir sem leggja til formlegt viðræðuhlé geri sér þá grein fyrir því að það er óraunhæft að ríkisstjórn sem ekki hefur áhuga á því að bera ábyrgð á inngöngu Íslands í Evrópusambandið og aðlögun á íslenskum lögum að regluverki Evrópusambandsins, ljúki viðræðunum. Ég lít þannig á að menn geri sér grein fyrir þessu og ég fagna því. (Gripið fram í: Það er raunsætt.) Það er raunsætt.

Síðan eru uppi hugmyndir um að ganga núna strax til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum. Það tel ég ekki raunhæft að gera, sérstaklega ekki á þeim forsendum og með þær spurningar undir sem lagt hefur verið til. Mest af öllu furða ég mig á því að þeir sem báru ábyrgð á viðræðunum hér síðustu fjögur árin skuli ekki þrátt fyrir allan hamaganginn, (Forseti hringir.) gauraganginn, ráðherrabreytingarnar, enn kannast við hversu mikilvægt það er að hvort tveggja sé til staðar í senn, þingvilji og þjóðarvilji til þess að menn nái einhverjum árangri í þessum viðræðum.