143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru reyndar fjölmörg rök fyrir því af hverju við ættum að afturkalla aðildarumsóknina að þessu sinni. Fyrst og fremst er það þannig að á þinginu er ekki meirihlutavilji fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Ég hef ekki séð eina einustu könnun frá því að fyrstu kannanir voru gerðar um þessi mál sem sýna fram á að meiri hluti landsmanna vilji ganga í Evrópusambandið. Ég tel að ástandið í viðræðum við Evrópusambandið eigi að endurspegla fyrst og fremst þetta tvennt, þ.e. vilja ríkisstjórnar, stjórnvalda á Íslandi á hverjum tíma, meiri hluta þings og síðan meirihlutavilja þjóðarinnar eins og hann birtist okkur meðal annars í kosningum og eftir atvikum í skoðanakönnunum.

En þá kemur sú staðreynd inn í myndina að mjög margir eru hlynntir viðræðum, jafnvel þótt þeir séu á sama tíma andvígir inngöngu í Evrópusambandið. Mín skoðun er sú að við stöndum á mjög merkilegum tímamótum í framkvæmd lýðræðis á Íslandi eftir atburði síðustu tíu ára. Ég hef mjög ríkan og djúpan skilning á því (Forseti hringir.) að fólk vilji koma að stórum ákvörðunum og úrlausnarefni okkar í utanríkismálanefnd og á þinginu verður að vinna með það hvernig við getum mætt þeirri kröfu.