143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þingmann til að rifja upp það sem segir á bls. 146 og 147 í skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið og velta fyrir sér hvað væri í raun og veru verið að eyðileggja ef aðildarumsóknin yrði dregin til baka. Þar segir skýrum orðum og stöfum að í sjálfu sér hafi ekkert gerst í viðræðuferlinu annað en að það hafi verið staðfest að á þeim sviðum þar sem við erum nú þegar þátttakendur, í innri markaðnum, fullnægjum við skilyrðum þess að aðlaga regluverk okkar að Evrópusambandinu. Á öðrum þeim sviðum þar sem Ísland er ekki nú þegar þátttakandi í Evrópusamstarfinu hefur óskaplega lítið gerst. Jafnvel þótt aðildarumsóknin yrði dregin til baka er ekkert sem kemur í veg fyrir að ný umsókn yrði lögð fram innan fárra ára og ég er alveg sannfærður um að væri til þess ríkur vilji hér á þingi og meðal þjóðarinnar yrði því alveg sérstaklega vel tekið af Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) En ég er hins vegar á sama tíma sannfærður um að menn vilji ekki halda opnum viðræðum sem engin alvara er að baki.