143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það kom fram mjög merkileg yfirlýsing hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem var um að þjóðin þyrfti að koma að málinu og þá væri eðlilegast að leggja fyrir tillögu, þ.e. þingsályktunartillöguna. Ég verð að biðja hæstv. forseta að gefa okkur tækifæri til þess að heyra hvort þetta sé sameiginlegt álit stjórnarflokkanna þannig að við getum rætt málið út frá því vegna þess að það gengur á tímann hjá okkur, og til að við getum fengið tækifæri til að meta þessa nýju stöðu. Þetta er þetta hænufet sem við fengum þarna. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við fáum tækifæri til þess að eiga rökræðu um þetta, eða var þetta bara eitthvert dæmi út í loftið?

En af því að við eigum þó nokkuð mörg hér eftir að halda ræður og það eru tvær aðrar tillögur sem talað hefur verið um að verði kláraðar og fari til hv. utanríkisnefndar vil ég spyrja hæstv. forseta: (Forseti hringir.) Er ætlunin að klára þær núna í einni lotu í nótt?