143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Áður en umræðu lýkur hefði ég viljað heyra frá stjórnarþingmönnum og ráðherrum hvað varð til þess að þessi tillaga var lögð fram. Við höfum hvergi fengið tækifæri til að ræða það eða fá viðbrögð við því. Ég held að einsdæmi sé — ég hef að vísu ekki langa reynslu á þingi en þó síðan 2007 — að lögð sé fram þingsályktunartillaga sem er með fullyrðingu um að þingmenn hafi brotið stjórnarskrána þegar þeir greiddu atkvæði í þessu tilfelli um umsókn um aðild að ESB. Síðan er hæstv. ráðherra gerður afturreka og látinn breyta tillögunni einfaldlega vegna þess að þetta var þvílík móðgun við þingið. Það vekur manni ugg um að þeir sem samþykktu að senda þessa tillögu inn hafi alls ekki lesið hana og jafnvel ekki fengið hana, því að mér skilst að hún hafi verið lögð fram með kynningu munnlega áður en hún fór svo í frekari umfjöllun.

Mér finnst þetta skipta máli. Mér finnst skipta máli hvernig staðið var að þessu og fá að heyra í þeim þingmönnum (Forseti hringir.) sem stóðu að þessu svo við getum haft það með í umræðunni. Er stjórnarmeirihlutinn sammála því að standa að þessari tillögu?