143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni áðan kvartaði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra yfir því að ekki væri hljóð í salnum og ekki væri nógu mikil alvara og fólk nennti auðsjáanlega ekki að hlusta á sig. En það er nú þannig, virðulegi forseti, að við í þessum sal erum bara mennsk. Það er þannig að þegar fólk er orðið þreytt og líður að kvöldi hleypur galsi í mannskapinn. Það var það sem gerðist, það hljóp svona galsi í mannskapinn. Þegar hæstv. ráðherra sagðist heyra fólk hrista hausinn fannst mér það voða fyndið, því að þá hélt ég að hann héldi að ég væri með kvarnir í hausnum.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að korter vantar upp á að við höfum setið á fundi í tólf tíma, með hálftíma matarhlé í hádeginu og hálftíma matarhlé eða til að vera mjög nákvæmur, 40 mínútur í kvöldmatarhlé. (Forseti hringir.) Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hvenær á fundi að ljúka?