143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst reyndar orðaval hv. þingmanns ekki sæmandi þegar hún talaði um gerræðislegar tillögur því að þessi tillaga er stjórnartillaga og á fullan rétt á sér eins og allar aðrar tillögur. Hún er ekkert gerræðislegri en tillagan um að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Það sem hv. þingmaður spurði hins vegar um var afstaða til málsins sem fer væntanlega til nefndar einhvern tímann á næstu sólarhringum. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður hér í ræðustól og viðtölum annars staðar að komist utanríkismálanefnd að einhverri annarri niðurstöðu en þessi tillaga felur í sér þá ætla ég ekki að fara að standa og þvælast og arga gegn því. Ég vil aðeins að þetta mál komist til nefndar og hún tekur að sjálfsögðu mark og mið af þeim ummælum sem hér hafa farið fram, þeim skoðunum sem fram hafa komið og fer yfir málið. Ef nefndin leggur til einhverjar breytingar á tillögunni, opnar á eitthvað eða kemur fram með einhverjar hugmyndir — ég hef til dæmis sagt að hugmynd Vinstri grænna sé mjög áhugaverð — sem getur samrýmt sjónarmið þá ætla ég ekki að dæma það úr leik fyrir fram. En það er hins vegar að mínu viti algjörlega óraunhæft og ósanngjarnt í sjálfu sér að ætlast til þess að tillagan sé dregin til baka áður en umræðan um hana klárast og áður en hún kemst til nefndar. Það er ekkert að þessari tillögu nema við erum bara ósammála um hvort draga eigi til baka umsóknina eða ekki. Eðlilegt er að tillagan komist til nefndar, fái þar eðlilega umfjöllun, henni sé ekki flýtt í gegnum nefndina, hún sé ekki látin sofa þar heldur verði hún send til umsagnar og gestir kallaðir til.

Ég skil það þannig að við séum að ræða þessar tillögur allar saman, þó það sé kannski eitthvað á reiki með það. Ég óska svo sannarlega eftir því að þær fái allar sömu meðferð sé það með þeim hætti, því að það er ekkert fyrir fram gefið í að þessi tillaga sé óbreytanleg. En nefndin þarf að fá hana til umfjöllunar.