143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún hefur búið og starfað í Brussel, að mér skilst, og hefur komið óskemmd heim til Íslands aftur svo það er (Gripið fram í: Ertu viss?) lífvænlegt í Brussel þótt ég kæri mig ekki um að hafa höfuðstöðvar Íslands þar. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður þekkir vel til og kom inn á nálægðarregluna áðan í andsvari. Ég veit að hún þekkir örugglega betur hvaða hugsun liggur á bak við innan Evrópusambandsins þegar verið er að tala um að færa aftur vald til þessara landa frá miðstýringunni í Brussel en við sem höfum áhyggjur af því, og höfum t.d. samsamað það því að búa úti á landi og þurfa að sækja allt eða mjög margt til höfuðborgarinnar, að við þufum þá að sækja það enn þá lengra. Mig langar að fá viðhorf hennar til þess, hvort hún telji að það að færa fyrst frá okkur vald til Brussel og færa það svo aftur til baka sé ekki að sækja vatnið yfir lækinn. Getum við ekki gert þetta sjálf, eins og við höfum gert með ýmis málefni sem við höfum fært til fólksins í nærumhverfi þeirra, til að mynda málefni fatlaðra og hugsanlega málefni aldraðra, án þess að hafa þetta millistykki, Evrópusambandið?