143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla nú ekki að koma með erfiða spurningu. Það koma alltaf upp vangaveltur um lýðræðið í þessari umræðu. Nú erum við að tala um að innan Evrópusambandsins sé þróun í átt að meira lýðræði, meira íbúalýðræði og því um líku. Núna deilum við um lögmæti ákvörðunar um að hefja aðildarviðræður. Það er rétt sem sagt hefur verið að hvergi hefur verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um að hefja viðræður við Evrópusambandið. Ég ber virðingu fyrir því að þegar engin hefð er fyrir slíku sjái fólk ekki endilega ástæðu til þess að brjóta það hefðarleysi, ef svo mætti að orði komast. En að sama skapi held ég að núverandi hæstv. ríkisstjórn ætti mun erfiðara pólitískt séð — það er kannski erfitt að trúa því að það geti verið erfiðara pólitískt séð, en ég held að það væri erfiðara fyrir hæstv. ríkisstjórn að slíta viðræðum eða jafnvel slá þeim á frest ef lögmætið hefði alla tíð verið skýrt, alveg frá upphafi, ég tala nú ekki um ef frumkvæðið hefði komið frá þjóðinni. Það hefði náttúrlega verið best, en þó frekar ólíklegt.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á, hlutirnir eru alltaf skýrari eftir á, en í ljósi reynslunnar, ef við gætum bara breytt einum hlut í fortíðinni og hefðum þá samþykkt breytingartillögu á sínum tíma og haft þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við ættum að hefja umræður, telur hv. þingmaður ekki að lögmætið núna væri (Forseti hringir.) skýrara og málið allt saman mun auðveldara viðfangs?