143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið óskaplega væri auðvelt að segja jú, en ég er bara ekki þeirrar skoðunar. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar. Þegar tillagan var lögð fram var hún samþykkt hér á Alþingi. Samfylkingin hafði lofað því í kosningum, það var kosningaloforð hennar að lögð yrði fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að samningur yrði borinn undir þjóðina þegar hann lægi fyrir. Við það var staðið. Það kom hér í þingið, síðan kom hér tillaga um að bera það undir þjóðaratkvæði. Það var vissulega þannig að mikill meiri hluti í skoðanakönnunum lýsti sig fylgjandi því en sú tillaga var bara til að reyna að leysa innanflokksátök í Sjálfstæðisflokknum. Af hverju í ósköpunum átti Alþingi Íslendinga að taka það á sig að leysa innanflokksátök í Sjálfstæðisflokknum? Sjálfstæðisflokkurinn verður að leysa sín innanflokksátök sjálfur. Voru einhverjar líkur til þess að þeir sem báðu um þetta mundu hvetja fólk til þess að segja já í þeirri atkvæðagreiðslu? Nei, auðvitað ekki. Sú atkvæðagreiðsla var sett upp til þess að þeir sem voru á móti því að aðildarumsóknin yrði lögð fram gætu hvatt fólk til að segja nei, enn og aftur vegna þess að við vissum ekki hvaða samning við gætum fengið, enn og aftur af því að við gætum engu ráðið um fiskinn í sjónum, að honum yrði stolið frá okkur. Eina ferðina enn (Forseti hringir.) átti að taka óupplýsta (Forseti hringir.) ákvörðun. Þess vegna var bara sagt nei.