143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna.

Eins og hefur verið komið að í andsvörum í kvöld hættir pólitískri umræðu á Íslandi til þess að fjalla mikið um formið. Það er ákveðin árátta að fara í formumræðu. Svo er sannarlega nægilegt efnið, því að hér er undir möguleg aðild að Evrópusambandinu sem er ríkjasamband 28 ríkja. Það efnisundirlag sem við höfum í þessari umræðu er auðvitað sú vitneskja sem við höfum nú þegar um Evrópusambandið, en ekki síst sú skýrsla sem Hagfræðistofnun vann. Svo er önnur á leiðinni frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Hvað formið varðar vitum við að annar stjórnarflokkurinn var búinn að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvert skyldi haldið með þetta mál. Við vitum að 50 þúsund manns hafa skorað á Alþingi að draga þessa tillögu til baka og við vitum að það er ekki aðeins almenningur, þ.e. kjósendur, sem eru ósáttir heldur líka til dæmis stærstu samtök launafólks á Íslandi, Alþýðusamband Íslands, og ýmsir forkólfar atvinnulífsins sem vitnað hefur verið í meðal annars hér í kvöld. Það eru miklir hagsmunir í húfi í þessu máli.

Efnisumræða er mikilvæg. Það er mikilvægt að fá að fara í efnisumræðu um framtíð mála á Íslandi og það gerum við ekki almennilega nema fyrir liggi samningur.

Hvers vegna telur þingmaðurinn (Forseti hringir.) að stjórnarflokkarnir vilji (Forseti hringir.) meina þjóðinni að komast í þá umræðu? (Forseti hringir.)