143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú get ég augljóslega ekki talað fyrir ríkisstjórnina, en ég held að þetta sé tvíþætt. Ég held að annars vegar óttist valdhafar að afsala sér valdi. Ég held að það sé ástæðan fyrir flestum einkennum lýðræðishalla af nokkru tagi. Kóngurinn vill vera kóngur. Sá sem er með völdin vill hafa völdin. Það er einhvern veginn regla.

Í öðru lagi held ég að ríkisstjórnin óttist ekkert meira en góðan samning og óttist ekkert meira en að vilji þjóðarinnar sé afdráttarlaus eins og skoðanakannanir sýna, að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið. Ríkisstjórnin vill ekki uppfylla vilja þjóðarinnar, er ósammála þjóðinni og er vitaskuld hrædd við að afsala sér valdinu til þjóðarinnar.

Mér hefur sýnst þetta vera almennt mynstur. Það er þess vegna sem ég bauð mig fram, þess vegna sem ég er pírati. Það er vegna þess að ég tel þurfa mjög mikið af lýðræðisumbótum. Það varðar ekki aðeins þjóðaratkvæðagreiðslur heldur þau skilyrði sem eru fyrir valdi yfir höfuð. Það er ýmislegt að ræða í þeim efnum.

Ég held að stjórnarflokkarnir vilji meina þjóðinni þá efnislegu umræðu sem kæmi væntanlega í kjölfar birtingu skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, sem við eigum von á. Ég held að hluti af asanum, hluti af ástæðunni fyrir því að hæstv. ríkisstjórn vill fara svona hratt og svona geyst og svona langt svona snemma sé vegna þess að hún óttast umræðuna, því að umræðan er eitthvað sem hún treystir sér ekki til þess að sigra. Þetta eru rökræður sem hún treystir sér ekki til að sigra. Hún treystir sér ekki til að sannfæra nógu marga kjósendur um að það sé ekkert vit í því að halda umræðunum áfram.

Ástæðan er einföld. (Forseti hringir.) Umræðurnar eru ekki nógu dýrar. Það er ekki nógu rökrétt (Forseti hringir.) að slíta umræðunni. Ég held að það sé það sem ríkisstjórnin óttist þegar allt kemur til alls.