143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við síðustu spurningunni, hvort uppfylli ekki lágmarksskilyrði lýðræðisins — jú, það gerir það. Fyrir mig prívat og persónulega, burt séð frá þeim málstað sem ég berst hér fyrir, þykir mér það alveg nógu sannfærandi. En það finnst ekki öllum, það er vandinn.

Ástæðan fyrir því að ég hefði viljað ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma var að ég hefði viljað tryggja lögmætið, því að þótt þessi rök sannfæri mig og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og aðra sem eru ekkert ægilega hræddir við viðræður við Evrópusambandið, þá situr það alltaf í mér varðandi lýðræðið og frelsið að maður verður að bera virðingu fyrir því að fólk er ósammála. Alveg sama hversu heimskt og fáfrótt fólk getur nú verið, sem það getur verið, þarf samt að bera virðingu fyrir því að þjóðin á þetta land, þjóðin stjórnar, þjóðin ræður. Það eru siðferðislegu rökin, það eru hin dæmigerðu lýðræðisrök sem ég er búinn að tyggja hérna aftur og aftur. Fyrir utan það eru þetta praktísku rökin, bara það að kjósa um lokaniðurstöðuna uppfyllir að vissu marki lágmarkskröfuna um lýðræði, en hún uppfyllir ekki alveg hámarkskröfu um lýðræði vegna þess að hámarkskrafa um lýðræði mundi leiða af sér óvefengjanlegt lögmæti.

Við erum í þeirri stöðu núna að ríkisstjórnarflokkarnir geta þó sagt: Þið höfðuð ekki umboð til þess að gera þetta. Það er ekki alveg rétt út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefndi, mér finnast þau sannfærandi og hv. þingmanni finnast þau sannfærandi, en það finnst ekki öllum. Það er nokkuð sem við verðum að gjöra svo vel að bera virðingu fyrir sama hversu illa okkur er við það. Við verðum að virða almennan sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga. Það er t.d. sama hvað mér finnst persónulega um samkynhneigð, fólk (Forseti hringir.) hefur rétt til þess að taka eigin ákvarðanir — þjóðin sem og (Forseti hringir.) við öll sem einstaklingar.