143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Leiðin að lýðræðinu er oft krókótt. Í þessu tilviki finnst mér hún samt vera nokkuð ljós og bein. Ef það er svo að menn ræða um tiltekinn mikilvægan samning sem unninn er af hálfu framkvæmdavaldsins í umboði Alþingis og síðan lagður fyrir þjóðina í endanlegri mynd og þjóðin fær að kjósa um hann, er þá ekki hægt að segja að lögmætið sé hafið yfir vafa og sé óvefengjanlegt? Ég held það.

Ég held að það sem skiptir langmestu máli og hugsanlega það eina sem skiptir máli í þessu sé að að lokum þegar búið er að teikna upp samning og allir geta skoðað hann í krók og kring þá fái allir að greiða atkvæði og segja sína skoðun á því hvort þeir vilji láta framtíð sína mótast af honum eða ekki. Það er í reynd það sem skiptir langmestu máli. Munurinn á fyrrverandi ríkisstjórn og þessari er sá að sú fyrri lofaði aldrei þjóðaratkvæðagreiðslu um ferlið. (Forseti hringir.) Þessi lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið. Það er kjarni málsins. Hún sveik, við ekki.