143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því síðasta sem hv. þingmaður sagði. Ég er þess fullviss að síðasta ríkisstjórn hefði staðið við loforð sitt og reyndar hefði hún staðið við þingsályktunartillöguna sem lögð var fram og samþykkt á sínum tíma vegna þess að í henni stóð að kjósa skyldi um þetta þannig að það var í raun og veru ekki valkostur að svíkja það loforð. Það hefði beinlínis verið lögbrot og farið í bága við samþykkt Alþingis, sem hefði nú verið aðeins alvarlegra en að svíkja kosningaloforð, ekki það að sé ekki alvarlegt. Það er alla vega löglegt að brjóta kosningaloforð, það er ekki löglegt að brjóta þingsályktunartillögu en mér skilst nú reyndar að á síðari tímum sé sú fullyrðing orðin eitthvað málum blandin.

En alla vega. Jú, það skiptir auðvitað höfuðmáli að þjóðin fái að hafa áhrif á niðurstöðuna sama hver hún er. Ég vil ekki gera lítið úr því, alls ekki. Mér finnst það (Forseti hringir.) bæði sjálfsagt og virðingarvert af fyrri ríkisstjórn að fara þá leið (Forseti hringir.) að samþykkja ekkert án samþykkis þjóðarinnar. Ég held bara að það hefði (Forseti hringir.) verið hægt að ljúka þessu máli með farsælli (Forseti hringir.) hætti ef lögmætið hefði verið enn þá skýrara.