143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hvort eitthvað hafi verið ákveðið um hversu lengi við ætlum að halda áfram. Ég ætla að minna hæstv. forseta á það að formaður Samfylkingarinnar hefur óskað eftir viðveru ráðherra undir sinni ræðu sem verður flutt á eftir eða á morgun, ég veit það ekki, (Gripið fram í.) eða á þriðjudaginn. Því langar mig að fá hæstv. forseta til að segja okkur hvernig hann sér þetta fyrir sér gerast. Mér fyndist það afar slæmt ef ósk hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, sem hann bar fram fyrr í dag um viðveru ráðherra undir ræðu sinni, verður virt að vettugi. Það er ekki eins og menn hafi ekki fengið fyrirvara. Þeir fengu töluvert lengri fyrirvara um það heldur en við fengum yfir höfuð á atkvæðagreiðslu um kvöldfundinn þannig að mönnum ætti að hafa verið í lófa lagið að kalla á þá. Ég óska eftir að fá upplýsingar um hver staðan á því (Forseti hringir.) er.