143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég var orðinn nokkuð jákvæður þegar tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tíndust hingað í hús, þau Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir, en nú eru mér bornar þær fregnir, eftir að við höfum kallað eftir því að aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins komi til fundarins, að báðir þessir ráðherrar séu horfnir úr húsinu, (Gripið fram í: Nú?) að á þingfundinum sé enginn ráðherra Sjálfstæðisflokksins yfir höfuð staddur og að hæstv. innanríkisráðherra hafi farið úr húsi án þess nokkru sinni að treysta sér til að taka til máls eða gera grein fyrir viðsnúningi sínum.

Virðulegur forseti. Það er auðvitað engin leið að bjóða þingmönnum upp á það að halda fundinum áfram með þessum hætti þegar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru hlaupnir í felur inn í myrkrið. Það er út af fyrir sig skiljanlegt að þeir vilji fela umræðurnar í myrkrinu og greinargerðir sínar fyrir afstöðu sinni, en það er algert lágmark að þeir komi hingað til fundarins en flýi ekki hver á fætur öðrum af hólmi.