143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra situr hér í salnum. Það er ekki nema tvö kvöld síðan, ef ég man rétt, hann sagði að að ekkert lægi á í þessari umræðu, hann hafði skipt um skoðun hvað það varðar. Ef það er rétt skilið og það er ekkert sem liggur fyrir í þinginu til dæmis varðandi leiðréttingu á skuldum, það er ekkert um verðtrygginguna, það er ekki komið neitt um sjávarútveginn og veiðileyfagjöld og við erum hvort sem er að bíða eftir öllum stóru málunum sem áttu að vera komin í þingið, af hverju erum við þá að reyna að halda þessum fundi áfram? Af hverju bíðum við ekki bara fram á þriðjudag og fylgjum dagskrá þingsins?

Hér hefur líka komið inn tillaga um það frá hæstv. fjármálaráðherra að greiða atkvæði um þingsályktunartillöguna. Yrði það ekki svolítið kómískt ef við bæðum þjóðina að greiða atkvæði um það hvort fara ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu? Mér fyndist það ansi merkileg spurning, ef ætti að spyrja að því.

(Forseti (ÞorS): Forseti hyggst svara spurningum í lok þessara fyrirspurna.)