143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég deili ruglingi annarra hv. þingmanna. Ég legg líka til að við slítum fundi núna vegna þess að það sem hægt er að semja um þarf að semja um áður en málið fer til nefndar, að mínu mati, vegna þess hvernig ferlið hefur verið hingað til. Það er ekki hægt að treysta því þótt menn tali saman að nokkur vilji sé til að komast að einhverri niðurstöðu og jafnvel þegar niðurstaðan er næstum því í höfn hefur ekki verið hægt að treysta því að henni sé fylgt eftir. Með hliðsjón af því að klukkan er orðin mjög margt og orð hv. fjármálaráðherra krefjast skýringa og af því að hæstv. fjármálaráðherra er ekki á svæðinu, frekar en oft áður þótt ég ítreki þakkir mínar til hans fyrir að hafa deilt nærveru sinni með okkur áðan, legg ég til að þingfundi verði slitið og við reynum að funda um það sem fyrst hver næstu skref í málinu eiga að vera.