143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Yfirlýsing formanns Sjálfstæðisflokksins fyrr í kvöld felur í sér kaflaskipti í þessari umræðu og hún setur þetta þingmál í allt aðra stöðu en þegar það var lagt fram. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt til sem einhvers konar málamiðlun að þjóðin fái að greiða atkvæði um það hvort hún vilji slíta viðræðunum. Það er allt annað en það sem var lagt fram í upphafi umræðunnar. Ég tel þess vegna algjörlega nauðsynlegt að það komi fram áður en lengra er haldið hvort þetta er hans einkaskoðun eða hvort þetta er skoðun forustu Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna get ég ekki annað en sagt að það sé fullkomlega réttmætt þegar menn óska eftir því að varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem lét svo lítið að kíkja hér í hús án þess að koma í sal og halda ræðu, komi og lýsi því yfir hvort hún styðji þetta. Ef svar hennar er já tel ég alveg ljóst að þessi tillaga nýtur ekki lengur stuðnings (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar. Þá getum við hætt þessu og tekið til við að ræða hinar tillögurnar tvær (Forseti hringir.) sem eru næstar á dagskrá.