143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, ég hef alltaf borið virðingu fyrir viðhorfi hennar í þessu efni. Hún var andvíg aðildarumsókn á sínum tíma en hefur stutt það að haldið verði áfram með málið til að fá í það botn.

Hæstv. fjármálaráðherra varð tíðrætt um þjóðarvilja og þingvilja. Mér fannst hann gefa sér, og finnst hann alltaf gefa sér, að þingvilji þurfi að felast í því að vilja efnislega ganga í Evrópusambandið. Fyrir því hef ég aldrei getað séð nokkur rök. Ég tel þvert á móti að sú afstaða sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók 2009 hafi verið fullkomlega málefnaleg og efnislega rökrétt, þ.e. að vilja leiða málið til lykta með því að fá aðildarsamning á borðið, fá eins góðan aðildarsamning fyrir Ísland og mögulegt var og leggja hann í þjóðaratkvæði.

Ég held satt að segja að vandi þessa máls sé ekki sá að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi tekið þessa afstöðu á sínum tíma, heldur sé vandi málsins sá að fleiri stjórnmálaflokkar hafi ekki tekið jafn hugrakka afstöðu til þessa máls. Dapurlegast af öllu er sá subbuspuni sem núverandi stjórnarflokkar, og sérstaklega Framsóknarflokkurinn, hafa vogað sér að hafa uppi um þessa atburðarás alla, þeir gera fólki í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði upp skoðanir fullkomlega að ósekju.

Þetta er vandinn sem ekki er hægt að komast hjá: Ef spurningarinnar er ekki spurt á efnislegum forsendum, á grundvelli þess að fá aðildarsamning og láta þjóðina greiða atkvæði um hann, þá endum við alltaf í endalausum ómöguleika. Ef það eru ekki þessir menn núna sem standa frammi fyrir ómöguleikanum verður það bara næsta ríkisstjórn, einhverjir ráðherrar í þeirri ríkisstjórn, og svo koll af kolli. Þjóðin mun aldrei geta gert það sem þessir menn lofuðu fyrir kosningar, hún fær aldrei að útkljá málið ef það getur ekki komið (Forseti hringir.) til hennar á forsendum umsóknar og ekki heldur á forsendum þjóðaratkvæðagreiðslu af því að það er ómöguleiki í því.