143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta mál vera mál sem við Vinstri græn berum ákveðna ábyrgð á, þ.e. að því ljúki á réttan hátt. Við héldum af stað í þessa erfiðu vegferð, sem var ekkert auðveld fyrir okkur, en við ákváðum að varða þá leið samþykktum flokksstofnana okkar, landsfundar og flokksráðsfunda. Fyrst haldið var af stað í þessa vegferð tel ég að við eigum líka að sýna það hugrekki að ljúka henni með niðurstöðu svo að ferðin hafi ekki verið farin til einskis. Ég lít svo á að mörg mál séu þannig vaxin að einhvern tímann verði að taka á þeim, ekki bara sópa þeim undir teppið, og hvort sem menn eru áfjáðir í að ganga þennan veg eða ekki eru mörg mál þess eðlis að ekki er um annað að ræða en að taka þau á dagskrá og ljúka þeim.

Ég óttast ekkert að við getum ekki lokið þessu máli með fullri sæmd og komið því í hendur þjóðarinnar. Við fengjum það þá í eitt skipti fyrir öll út af borðinu, það er það sem við þurfum að gera. Mér finnst það mikil sóun ef við höfum sóað þessum tíma, vinnu, peningum, orku, til einskis.

Ef eitthvað er er ég áfjáðari í að fá niðurstöðu í þessu máli frekar en að það verði einhvers konar fylgja komandi ríkisstjórna.