143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðu hennar, sem því miður takmarkaðist auðvitað af þeim tíma sem þingmenn hafa í seinni umferð, aðeins fimm mínútur.

Ágætt er að rifja það aðeins upp að þegar menn fóru með þingsályktunartillöguna í gegnum þingið um að efna til viðræðna lá fyrir ágreiningur í nánast öllum flokkum. Það var leitt til lykta á þeim tíma með atkvæðagreiðslu sem fór 33 atkvæði gegn 28. Vinstri hreyfingin – grænt framboð var alls ekki einhuga um þá tillögu.

Það sem mér hefur fundist allt frá þeim tíma hafa verið heiðarleg afstaða hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og bera vott um einurð og kjark, það er að þora að láta leiða málið til lykta og koma því þá þannig annaðhvort á borðið eða af því. Hingað til hefur það verið þannig, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að meiri hluti þjóðarinnar hefur verið gegn aðild á sama tíma og við höfum svo séð núna meiri hluta sem vill að viðræðum ljúki.

Hver er þá áhættan í því að fá svarið? Mér finnst allt of lítið hafa verið gert úr þessu í sjálfu sér. Nú hefur hæstv. ráðherra, Bjarni Benediktsson, opnað á það að hér verði þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er komið í blöðin sem fyrirsögn. Þá spyr ég: Er ekki langeðlilegast að fara eftir þeim hugmyndum sem eru á thjod.is þar sem tæp 50.000, eða 49.810, hafa þegar skrifað undir: „Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?“ Gefnir verði tveir kostir; viltu ljúka viðræðunum eða viltu slíta þeim? Er ekki eðlilegast að það verði spurningin? Þarf nokkuð að vera að leika sér með að finna einhverjar aðrar leiðir til að leggja þetta í dóm (Forseti hringir.) þjóðarinnar?