143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fram kom hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrr í kvöld að það hefði kannski verið rétt að leggja þetta fyrir þjóðina til að vilji þings og þjóðar fari saman, eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á í ræðu sinni. Þá er það nú ákveðinn ómöguleiki að finna út hvernig maður ætlar að meta það. Það er svolítið merkilegt líka í þingsályktunartillögunni sem er til umræðu að það eru mótsagnir í henni að því leyti að sagt er, ja, miðað við skoðun þjóðarinnar að vilja ekki ganga í Evrópusambandið þá sé eðlilegt að slíta þessu, en síðan má ekki taka mark á þjóðinni í annarri skoðanakönnun, sem óskar eftir því að fá að greiða atkvæði og taka afstöðu hvort eigi að ljúka þessu eða ekki.

Mig langar aðeins að minnast á eitt, af því að hv. þingmaður nefndi það í svari við andsvari þegar talað var um hvað væri að óttast, ástæðuna fyrir óttanum og getgátur um það. Menn hafa velt vöngum yfir því, meðal annars á útifundi og eins líka á iðnþingi, að um sé að ræða hreina og klára hagsmunagæslu þar sem menn horfa á tiltekna hópa, annars vegar útgerð og hugsanlega bændur, að verið sé að verja þá. Menn hafa ekki viljað taka umræðuna til enda og láta meta það þegar hún er komin fram hvað er í boði. Mig langar aðeins að heyra frá hv. þingmanni: Telur hún enga möguleika á að víkja frá eða fá sérkjör fyrir Íslendinga í þeim viðræðum?

Svo í síðasta lagi hefur mikil umræða verið um það að átt hafi sér stað einhver aðlögun allt ferlið. Ég hef ítrekað spurt eftir því í þessum þingsal: Bendið mér á einhverja þætti sem hafa verið aðlagaðir vegna umsóknarinnar, þ.e. breytingar á stofnunum eða lögum (Forseti hringir.) sem eru eingöngu vegna þess, en ekki bara vegna EES. Veit þingmaðurinn um einhver dæmi um slíkt?