143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þessa meintu aðlögun hef ég kallað eftir því oftar en einu sinni héðan úr þessum ræðustól að þeir sem telja sig hafa heimildir fyrir því að sú aðlögun hafi farið af stað nefni það þá út á hvað sú aðlögun gengur og bendi á eitthvað í lagaumhverfi okkar, regluumhverfi, eða innan einhverra stofnana sem rekja megi til aðlögunar. Ég tel að enn hafi enginn gefið sig fram sem getur gefið konkret upp hvað það nákvæmlega er. Ég vildi gjarnan fá að heyra frá þeim hv. þingmanni eða einhverjum öðrum í þjóðfélaginu sem getur nákvæmlega bent á það.

Hvað varðar framhald þessa máls tel ég að þeir hæstv. ráðherrar sem hafa verið að gefa undir fótinn með að gefa þjóðinni kost á að koma að málinu, verði að taka stöðuna upp á nýtt, taka kúrsinn upp á nýtt og gera sér grein fyrir því að þjóðin mun aldrei sætta sig við að málinu verði lokað.

Hv. þingmaður nefndi við hvað menn væru hræddir. Ég er farin að halda að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn séu hræddir við að þeir verði sneyptir með því að þjóðin muni segja: Við viljum ljúka þessum viðræðum. Og menn hafi ekki burði til þess að taka þeirri niðurstöðu sem kemur frá þjóðinni um að fá að ljúka viðræðunum og þeim (Forseti hringir.) finnist það vera einhver niðurlæging. Ég er farin að halda það. Við hvað eru menn hræddir?