143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ósk mín er tvíþætt: Annars vegar að ráðherrarnir sem við höfum kallað á hér í nokkra daga komi hingað og eigi við okkur samtal um það hvaða stefnu þetta mál eigi að taka. Við fáum alls konar skilaboð, í þessum ræðustóli, úti í samfélaginu og í gegnum fjölmiðla. Það er mjög mikilvægt að menn komi hingað og við reynum að ná saman um það í hvaða farveg við setjum þetta mál.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. forseta í ljósi þess að klukkan verður eitt eftir 25 mínútur: Hversu lengi verður haldið hér áfram? Hér áðan var sagt: Enn um sinn. Hv. þm. Brynjar Níelsson spurði ekki fyrir löngu hvað „enn um sinn“ væri langur tími. Þá var því svarað að það væru 48 mínútur. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort „enn um sinn“ þýði einnig 48 mínútur hjá þessum hæstv. forseta.