143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fagna komu hæstv. menntamálaráðherra í salinn, sem er eins og sólargeisli í þessari umræðu um miðja nótt. Hann hefur gengið framar öðrum ráðherrum í að gangast einlæglega við kosningasvikum Sjálfstæðisflokksins og hefur ekki dregið neinn dul á það að þar eru menn að ganga á bak orða sinna. Ég vil þess vegna endilega bjóða honum að koma hingað og stíga inn í umræðuna. Við finnum leið til þess að hann geti fengið orðið hér án tafar.

Hér ganga ýmsar kviksögur um það hvað fjármálaráðherra sagði raunverulega áðan. Sumir segja að hugmynd hans sé að láta einvörðungu kjósa um þá tillögu sem hér er, en það er náttúrlega ómögulegt því að þá fengi þjóðin að kjósa á milli þess að halda ekki áfram og hætta aðildarviðræðunum. Það er eins og að bjóða mönnum að velja bíl að eigin vali en þeir megi bara velja milli Moskvitch og Moskvitch.

Ég vildi gjarnan heyra viðhorf hæstv. menntamálaráðherra. Hann er kominn í hús. Það er eðlilegt að hann fái að tjá sig. Það væri mikilvægt og hjálplegt ef hann gæti tekið þátt í umræðunni.