143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það eru alltaf að verða nýjar vendingar í þessum máli og erfiðara að vita um hvað er að ræða.

Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra er kominn í hús og vænti þess að hann fari yfir kúvendinguna í afstöðu sinni. Ég mundi vilja vita, frú forseti, hvort við eigum von á fleiri hæstv. ráðherrum sem ætli að lýsa afstöðu sinni og fara yfir það.

Fyrir mína parta skal ég viðurkenna að klukkan er orðin heldur margt. Ég á eftir að fara í ræðu númer tvö, sú fyrri var ekki nema tíu mínútur og þetta eru dýrmætar mínútur í stóru máli. Mér þætti eðlilegt að ráðherrum væri gefinn kostur á að segja okkur hvað þeir eru eiginlega að hugsa í þessu máli og hvíla síðan umræðuna og gefa fólki tækifæri á að mæta hingað hressara til leiks á þriðjudaginn kemur.