143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og spyr hann áfram út í útfærsluna. Nú hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar vissulega tekið nokkrum hamskiptum. Fjármálaráðherrann er ekki eini ráðherrann sem er óþekkjanlegur frá hópeflisfundinum fræga, eins og þingmaðurinn benti á, utanríkisráðherra hefur gersamlega tekið stakkaskiptum líka á síðustu vikum og er allur mýkri og viðræðubetri en hann var í upphafi flutnings þessarar tillögu.

Ef við gefum okkur það að í þessu felist raunverulegur vilji ríkisstjórnarflokkanna til einhvers konar samráðs og sinnaskipta í málinu þá hef ég áhyggjur af því við málamiðlunartillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ef ekkert verður gert á næstu árum. Ég held að hluti af vandanum sem við er að fást núna og stærsta ástæðan fyrir því að stjórnarflokkarnir eru að reyna að koma sér undan því að efna loforð sitt sé að þeir geta skákað í því skjólinu að undirbúningsvinnan hefur ekki verið unnin. Vinstri hreyfingin – grænt framboð var með góða lausn á þessu 2009, að sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu, fá hinn besta samning og leggja grunninn að undirbúningsvinnunni fyrir ákvörðun þjóðarinnar í fyllingu tímans.

Ef því er ekki til að dreifa, hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér framhaldið á tímanum frá því, þ.e. ef við mundum gefa okkur það að okkur tækist að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina í meðförum þessa máls í þinginu og haga málum þannig að menn mundu einfaldlega falla frá þessari fráleitu slitatillögu og fallast á að halda málinu áfram lifandi með einhverjum hætti og útbúa og undirbúa aðkomu þjóðarinnar á síðari stigum? Hvernig sæi hann tímann þangað til verða nýttan sem best til þess að auka skilning (Forseti hringir.) okkar allra á aðild, þýðingu hennar, hættum og kostum þannig að þjóðin gæti (Forseti hringir.) tekið upplýsta afstöðu til álitamálsins?