143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að straumhvörf urðu í þessari umræðu við yfirlýsingu fjármálaráðherra hér fyrr í kvöld um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er auðvitað brýnt að það komi fram hvort þetta er hans einkaskoðun eða hvort samstarfsflokkurinn deilir henni.

Í fjarveru hæstv. forsætisráðherra er það þó alla vega ánægjuefni að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason er hér til staðar, aðstoðarmaður forsætisráðherra, og um þessar mundir þingmaður Framsóknarflokksins. Hann ætti að vera í færum til þess að svara þessu. Ég minnist þess ekki að fram hafi farið umræða um Evrópusambandið án þess að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason blandaði sér í hana, en það segir kannski sína sögu um það hversu vondur þessi málatilbúnaður allur er (Gripið fram í.) að hann hefur enn ekki tekið þátt í umræðunni. (Gripið fram í: Hann tekur ekki einu sinni tekið þátt …)

Ég vil líka spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon vegna þess að hann hefur 30 ára reynslu í þinginu: Þekkir hann einhver dæmi þess að stjórnmálaflokkur hafi farið fram eins og Sjálfstæðisflokkurinn á síðasta ári í kosningabaráttu með afgerandi kosningaloforð og síðan, eins og hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur upplýst, (VigH: Vinstri græna.) gengið til stjórnarmyndunarviðræðna án þess nokkru sinni að leita eftir því við samstarfsflokkinn í stjórnarmyndunarviðræðunum (VigH: Vinstri grænir.) að kosningaloforð flokksins yrði hluti af stjórnarstefnunni? Hér kallar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fram í athugasemd um aðrar stjórnarmyndunarviðræður. Þá var alveg skýrt að samstarfsflokkurinn var ekki til viðræðu um að kosningaloforð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í því efni næði fram að ganga og þess vegna varð Vinstri hreyfingin – grænt framboð að semja um einhvern farveg fyrir málið. En þekkir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þess einhver dæmi að stjórnmálaflokkur hafi lofað kjósendum sínum í stórmáli og gengið síðan til stjórnarmyndunarviðræðna án þess svo mikið sem að biðja samstarfsflokkinn um að kosningaloforðið fengist uppfyllt?