143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að halda því til haga að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur komið til andsvara en hann hefur enn ekki flutt ræðu sína um þetta málefni sem hefur þó verið honum svo mikið hjartans mál. Ég hvet hann til þess að skýra það fyrir þjóð og þingheimi hvort Framsóknarflokkurinn styður hugmynd formanns Sjálfstæðisflokksins um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hugmynd formanns Sjálfstæðisflokksins, þó að hún sé hænuskref í áttina til okkar, felur í sér að hann styður augljóslega ekki lengur þá tillögu sem liggur nú fyrir og er hlaupinn frá henni eins og margir aðrir stjórnarliðar, eðlilega. Tillagan felur það hins vegar í sér að fólk eigi að fá að kjósa á milli tveggja kosta sem þó eru báðir hinn sami, að viðræðunum verði ekki haldið áfram eða að viðræðunum verði slitið, að fólk fái ekki í þjóðaratkvæðagreiðslunni að njóta kosningaloforðs Sjálfstæðisflokksins. Það er formaður Sjálfstæðisflokksins sem leggur til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem fólk á ekki að fá að kjósa um valkostinn sem hann lofaði því að kosið yrði um. Það er satt að segja orðið býsna erfitt að útskýra þetta hér í ræðustól jafn undarlegt og það er. (Gripið fram í: Já, …)

Hvernig má það kallast lýðræði að fólk fái að velja milli tveggja slæmra kosta en ekki um þann kost sem það sannarlega vill og fram kemur í skoðanakönnunum? Telur ekki hv. þingmaður að þótt þetta sé hænuskref í áttina til okkar þá sé það hvergi nærri fullnægjandi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur? Verður ekki að vera val í þjóðaratkvæðagreiðslu um að hætta annaðhvort viðræðum eða halda þeim áfram eins og þjóðin vill?