143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Sú umræða sem hér hefur staðið töluvert langa hríð hefur ekki bara verið skemmtileg og gagnleg, hún hefur líka skipt mjög miklu máli. Þegar ég lít yfir feril umræðunnar og ekki síst núna þennan dag sem senn er búinn, finnst mér að umræðan hafi í reynd svipt sér yfir í nýjan og allt annan farveg.

Hér hafa í dag gerst tvenn söguleg tíðindi sem komið hafa mér að minnsta kosti töluvert á óvart. Í dag hófum við umræðuna með óundirbúnum fyrirspurnum þar sem hæstv. heilbrigðis- og velferðarráðherra lýsti því yfir algjörlega klárt og kvitt fyrir sína parta að hann teldi í reynd ómögulegt að þessu máli lyki öðruvísi en með aðkomu þjóðarinnar. Það er það sama sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni í kvöld þegar hann lýsti því yfir að hann hefði skipt um skoðun og væri nú þeirrar skoðunar að þjóðin ætti að koma að úrslitum þessa máls.

Ég get tekið undir með þeim sem hér hafa talað í kvöld að sú hugmynd sem hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins var með hugnist mér ekki. Ég vil samt ekki falla í þá gryfju sem einn hv. þingmanna gerði hér fyrr í kvöld að kalla hana hænuskref í átt til réttlætisins. Það er rangt. Þetta eru meiri háttar kaflaskipti. Þetta felur það í sér að annar forustumanna ríkisstjórnarinnar er kominn á þá skoðun að það sé rétt að gjörbreyta um farveg fyrir umræðuna og fara þá leið að það verði þjóðin sem fái að lokum að taka ákvörðunina. Ég tel að það skipti ákaflega miklu máli. Þetta er það fyrsta sem liggur eftir þessa umræðu.

Í annan stað tel ég líka að umræðan hafi kannski í fyrsta skipti orðið til þess að íslenska þjóðin hefur horfst í augu við þann valkost sem Evrópusambandið er og hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún vill ekki varpa honum frá sér. Það er að vísu ekki þannig að hún hafi tekið hann í faðm sér og umfaðmað hann af kærleik og hlýju eins og málstaðurinn verðskuldar, en hún hefur sagt: Ég vil ekki sleppa honum. Það er mjög mikilvægt, 82% þjóðarinnar hafa sagt að þau vilji skoða niðurstöðuna, þau vilji kíkja í pakkann, eins og menn segja. Og þá segi ég það sem reyndur samningamaður að ég hef aldrei gert nokkurn samning án þess að vilja sjá lokaniðurstöðuna áður en ég tek afstöðu til hennar. Það skiptir ákaflega miklu máli.

Í þriðja lagi er það auðvitað líka mikilvægt að innan kannski tuttugu og fjögurra stunda munu jafnmargir hafa ritað nafn sitt undir lista Já, Íslands með kröfu um þjóðaratkvæði um framhald viðræðna og kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. 50.454 Íslendingar kusu Sjálfstæðisflokkinn og það vantar innan við eitt þúsund til þess að þeim fjölda sé náð. Það eru merkileg tíðindi. Þau hafa að sjálfsögðu hreyft við Sjálfstæðisflokknum og það er það sem er að gerast hér á þessum síðasta sólarhring umræðunnar hinnar fyrri um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í reynd skipt um skoðun. Það er það sem stendur eftir þegar við munum kveðjast hér síðar í nótt eða árla morguns.

Í fjórða lagi má segja að þessi umræða hefur líka skipt máli vegna þess að hún hefur skýrt stöðuna mjög mikið. Umræðan hingað til síðustu árin hefur markast af því hvað er mögulegt og hvað er ómögulegt. Því hefur verið haldið fram og það hafa verið helstu rök andstöðunnar að ekki sé hægt að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fyrir Ísland að ganga þar inn vegna þess að við getum ekki fengið þær lausnir sem við þurfum að fá á ýmsum helstu vandamálum okkar, annars vegar að því er varðar landbúnað og hins vegar varðandi sjávarútveg. Það er tvennt sem stendur eftir í umræðunni í þessum efnum og kemur fram í þeirri skýrslu sem var upphaf hennar.

Í fyrsta lagi liggur það fyrir að einn skýrsluhöfunda, sem falið var að skoða feril og stöðu viðræðnanna sjálfra, kemst að þeirri niðurstöðu að annað þessara tveggja vandamála, þ.e. það sem varðar landbúnaðinn, er ekki óleysanlegt. Hann telur það nægilega tryggt til þess að setja það fram sem eina af niðurstöðum sínum. Í öðru lagi, sem er miklu merkilegra, liggur það algjörlega skýrt fyrir af hálfu prófessors emerítusar Stefáns Más Stefánssonar, eins helsta stjórnskipunarfræðings okkar og Evrópuréttarfræðings, að það er hægt að fá sérlausnir til lausnar á vanda sjávarútvegsins svo fremi sem þær séu skýrt afmarkaðar. Þá tel ég, herra forseti, að þeir sem af þeim sökum hafa verið andstæðir umræðunni og aðild verði að minnsta kosti að falla frá þeim parti (Forseti hringir.) röksemdar sinnar.