143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóðar upplýsingar. Auðvitað er það áhyggjuefni að það skref sem ríkisstjórnin hefur stigið, að leggja til slit á aðildarviðræðunum, gerir nánast ómögulegt að uppfylla þau fyrirheit sem gefin voru heimilunum í landinu. Með þessari tillögu er verið að taka út af borðinu einu raunhæfu áætlunina um að draga úr fjármagns- og vaxtakostnaði og verðtryggingarkostnaði heimilanna í landinu. Það er engin önnur áætlun í staðinn, aðeins gjaldeyrishöft kosta íslensk heimili 80 þús. milljónir á ári. Ég hef því sömu áhyggjur og hv. þingmaður að það verði ekki bara svik á kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðsluna heldur sé Framsóknarflokkurinn svo gott sem búinn að lýsa því yfir að hann muni ekki efna kosningaloforð sitt um afnám verðtryggingar. Hann gerði það með því að láta sitt eigið fólk komast að þeirri niðurstöðu eftir kosningar að ekki væri hægt að uppfylla kosningaloforðið.

Ég vil ítreka þann hluta andsvars míns sem hv. þingmaður hafði ekki tíma til að bregðast við, um það hvernig hann metur hina algjöru þögn Framsóknarflokksins hér í kvöld, eftir yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins um að til greina komi að fara með þessa tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslu; hvernig á því standi að þrátt fyrir ítrekaðan eftirgang sé hæstv. utanríkisráðherra, sem flytur tillöguna sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur nú horfið frá, ekki búinn að tjá sig um þetta útspil samstarfsflokksins, hvort Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn til þessa.

Er um að ræða djúpstæðan ágreining á milli stjórnarflokkanna? Er Framsóknarflokkurinn að koma í veg fyrir að formaður Sjálfstæðisflokksins fái vilja sínum framgengt og komi málinu til þjóðarinnar? Eða hvernig sér þingmaðurinn þetta liggja hér í salnum?