143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að átta sig á hvernig sambúðin er á stjórnarheimilinu og hver styður hvern. Mér hefur þó fundist að Sjálfstæðisflokkurinn, sem að vísu gaf miklu öflugri loforð, þ.e. núverandi ráðherrar, fyrir kosningarnar, hafi verið tilbúinn til að reyna að koma eitthvað til móts við sín eigin loforð. Á sama tíma hefur hæstv. utanríkisráðherra, sem hér hefur verið í salnum, komið og sagt — hann nánast hreytti því í okkur — að ef utanríkismálanefnd geri eitthvað sem henni finnst betra en það sem hann sé að gera muni hann ekki þvælast fyrir. Þetta er að vísu í minni frásögn, þetta er efnislega en ekki orðrétt haft eftir hæstv. utanríkisráðherra.

Ég vil túlka það á þann veg að flóttinn sé alveg eins hafinn þar, þ.e. viðurkenningin á því að til að fá lausn í þessu máli verði menn að leyfa þjóðinni að taka þátt í lausninni, að um þetta verði aldrei sátt nema menn sammælist um að leyfa þjóðinni að fella dóm.

Aftur á móti finnst mér mikilvægt að við höldum umræðunni, sem hefur einmitt ekki verið svo mikil hér, varðandi afkomu heimilanna eins og ég var að nefna, t.d. þetta með vaxtakostnaðinn. Mér er minnisstætt þegar ég fór á einn af fyrstu fundunum um ESB hjá Bændasamtökunum á Hótel Sögu, og ég hef sagt frá því áður. Þar sátum við og hlustuðum á kosti og galla ESB, aðallega gallana því að þetta var á þannig fundi. Þar steig þó fram fyrrverandi ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, og sagði: Hvað skyldi það muna miklu fyrir meðalbú, sem er skuldsett upp á einhverja tugi milljóna, ef það væri nú með vaxtakostnað sem væri sambærilegur venjulegum kostnaði fyrirtækja í Evrópu, hvort ekki væri meiri ávinningur af því að komast í það vaxtaumhverfi en að fá beingreiðslur eins og bændur fá? Þetta var ábending (Forseti hringir.) eða hugmynd frá Valgerði Sverrisdóttur. (Forseti hringir.) Það segir auðvitað heilmikið um umræðuna hvernig þetta hefur nú allt snúist á haus og menn neita að svara svona hlutum.