143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nú búin að vera afar góð og gagnleg umræða og ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Stóru tíðindi dagsins, eftir yfirlýsingu hæstv. heilbrigðisráðherra undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir í morgun, eru í raun og veru ræða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í kvöld, sem hann flutti hér eftir töluverða eftirgangsmuni. Það sem eru kannski stóru tíðindin þar er að formaður Sjálfstæðisflokksins hafnar Heimssýnarleiðinni. Hann hafnar þeirri harðlínunálgun sem verið hefur af hálfu Heimssýnarhluta stjórnarflokkanna og það eru nokkuð mikil tíðindi. Þar er töluverð vending á ferðinni þegar harðlínuöflin í báðum flokkum hafa í raun ráðið för, en með þessu útspili hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er þessum öflum settur stóllinn fyrir dyrnar.

Það hefur náttúrlega verið mjög áberandi í þessari umræðu allri, vegna þess að það mátti öllum vera ljóst að tímasetning, innihald og framsetning þessarar tillögu á sínum tíma var klúður, að síðan þá, í raun og veru síðan 21. febrúar hefur augljós streita varað á milli flokkanna og inni í þeim hvorum um sig. Enda held ég að það sé nú ekki ofsagt að hér sé um að ræða stærsta klúður ríkisstjórnarinnar hingað til og er hún þó ekki búin að vera við lýði nema í um tíu mánuði.

Mig langar til þess að biðja hv. þingmann að segja frá afstöðu sinni til þessa, hvernig hann sjái fyrir sér framvinduna eftir útspil hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra (Forseti hringir.) og stöðu Heimssýnarlínunnar í kjölfarið á því útspili.