143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sannarlega verulega vandræðalegt fyrir fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum líðandi stundar og sögulegt að horfa upp á erfiðleika stjórnarflokkanna í þessum efnum.

En mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeirri sýn með mér og þingflokki Vinstri grænna að þingsályktunartillaga þingflokks VG geti verið einhvers konar sáttagrunnur. Væntanlega hefur hv. þingmaður tekið eftir því að í tillögunni eru í raun margs konar útfærslur sem eru ókláraðar, þ.e. bæði að því er varðar tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og líka varðandi þá spurningu sem þar yrði uppi á borðum. Telur hv. þingmaður að það gæti orðið leið til þess að ná einhvers konar sáttagrunni eða einhvers konar jafnvægi í umræðunni?

Ég hef sagt það sjálf í þessari umræðu að mér finnist mikilvægt að við lítum þetta þeim augum að við séum fyrst og fremst með lýðræðisverkefni í höndunum miklu frekar en viðfangsefni sem við leiðum til lykta með hefðbundnu meirihlutavaldi hér innan húss, að hér séum við að takast á við aukna kröfu um aðkomu þjóðarinnar og lýðræðislega nálgun í stórum spurningum. Sér þingmaðurinn flöt á því að við náum breiðri samstöðu um nálgun af þessu tagi sem tryggir að nánast allir hér innan húss geti vel við unað eða þokkalega og að þjóðin fái í raun að segja sitt orð að því er varðar næstu skref framvindu og afdrif þessa máls?