143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í þingkosningunum sem fóru fram fyrir tæpu ári var ekki verið að kjósa um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Það var þó uppi óróleiki innan Sjálfstæðisflokksins sem olli því að forkólfar þess flokks tóku af öll tvímæli um að ekki yrði tekið af þjóðinni að fá að ákvarða hvort áfram yrði haldið með aðildarviðræður, ef á þyrfti að halda.

Nei, það var verið að kjósa um heimsmet hæstv. forsætisráðherra, þess sama forsætisráðherra sem nú dylgjar um afstöðu Evrópusambandsins til stöðu Íslands sem aðildarviðræðuríkis. Þess sama forsætisráðherra, herra forseti, sem hefur ekki sést hér í umræðunni um þetta mikilvæga mál nema til að greiða atkvæði um lengd þingfundar.

Þegar þessi furðulega tillaga, sem ég hef áður lýst afstöðu minni til, kom fram vakti það hörð viðbrögð, harðari viðbrögð en hæstv. fjármálaráðherra hafði órað fyrir og hvernig eru þau viðbrögð? Rúmlega 20% kjósenda hafa skrifað undir áskorun um að tillagan verði dregin til baka og efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu, og þá ekki um tvo slæma kosti heldur tvo raunverulega valkosti. Það er kannski ágætt að hæstv. fjármálaráðherrann hugsi nánar hvað fólk er að biðja um.

Það voru ekki einungis 20% kjósenda sem undirrituðu áskorun heldur er samkvæmt skoðanakönnunum yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda sem vill þjóðaratkvæðagreiðslu. Þúsundir kjósenda hafa mótmælt á Austurvelli dag eftir dag og þetta er fólk úr öllum flokkum og þetta er fólk með mjög ólíkar skoðanir á mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þessi furðulega ákvörðun var tekin á grundvelli skýrslu sem í raun og veru gefur litla ástæðu til að ljúka aðildarviðræðunum. Ráðherrarnir vilja ekki útskýra þá afstöðu sína og ég ætla að kalla eftir henni í bili, hún hlýtur að koma fram á einhverjum tímapunkti.

Í millitíðinni, núna á síðustu dögum, í þessu flausturslega máli, kom Evrópustefna ríkisstjórnarinnar fram. Þar er tekið fram að við séum nátengd Evrópu hvað varði menningu og markaðssvæði og mjög mikilvægt sé að tryggja aðgengi Íslands að innri markaði Evrópusambandsins og það eigi að gera með aðlögun án áhrifa. Ríkisstjórnin — og hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason og Vigdís Hauksdóttir hafa talað hér um aðlögun, þau töluðu sig blá í framan um aðlögun, aðlögunarviðræður — boðar aðlögun Íslands að Evrópusambandinu án áhrifa. Það er það sem þau hafa upp á að bjóða fyrir okkur hin.

Það er svo mikilvægt í umræðunni að Evrópusambandið er ákveðið kerfi, sameiginlega ákveðið, sem aðildarþjóðirnar aðlaga sig að. Þannig býrðu til samband. Svo þegar ríki eins og Ísland sækir um aðild aðlögum við okkur, ef við göngum í sambandið, að því sem þar er að finna. Sumt er kannski ekki gott fyrir hagsmuni okkar og þá leitum við leiða til að finna lausnir á því. Fundnar eru leiðir sem ógna ekki eða ganga ekki nærri hagsmunum annarra aðildarríkja. Ef við þurfum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni göngum við ekki í sambandið.

Það er augljóst að ríkisstjórnin er hrædd við kjósendur og það finnst mér óþægilegt því að (Forseti hringir.) fólk sem er hrætt hugsar ekki alltaf alveg skýrt, eins og þetta mál er besta dæmið um.