143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er á svipuðum slóðum og aðrir þeir sem eru aðildarsinnar, ef svo má segja, og þykir nokkuð seint að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu undir lok kjörtímabilsins, enda er það ekki innihald tillögu okkar heldur er sagt „fyrir lok“ sem gæti falið í sér allt þetta tímabil.

Mig langar aðeins að staldra við það sem hv. þingmaður segir varðandi spurninguna hver ætti að leiða aðildarviðræður. Þar erum við komin að álitamáli sem lýtur að ómöguleikanum margumrædda og það hvernig við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði nálguðumst það viðfangsefni á síðasta kjörtímabili, sem í mínum huga snýst ekki um ómöguleika heldur einfaldlega málefnalega og faglega nálgun á flóknu verkefni.

Ég hef raunar velt því fyrir mér, þótt það sé hvergi komið á blað né hafi verið sett fram, hvorki í ræðu né riti, hvort það væri ekki þingsins við slíkar kringumstæður, og raunar við hvaða kringumstæður sem er, að skapa hæstv. utanríkisráðherra einhvers konar þverpólitískt bakland algjörlega óháð samsetningu ríkisstjórnar til þess að leiða málið til lykta, þannig að það sé tryggt að fagleg og efnisleg sjónarmið séu undir stýri í hverju skrefi en um leið sé í einhverjum skilningi pólitískri ábyrgð á verkefninu dreift á þingið sem heild. Mér liggur við að segja að í þessu efni væri þjóðstjórn, þ.e. í því að leiða þetta mál til lykta, til þess að koma í veg fyrir ímyndaðan eða raunverulegan (Forseti hringir.) ómöguleika í málinu. Þetta er vangavelta en mér finnst það vel koma til greina, (Forseti hringir.) sérstaklega ef um væri að ræða viðfangsefni (Forseti hringir.) sem næði yfir fleiri en eitt kjörtímabil.