143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Hv. þingmaður vék að því í máli sínu hvernig tillöguna bar að og þátttöku stjórnarliða í umfjöllun um þetta stóra og mikla hagsmunamál þjóðarinnar. Þegar þingsályktunartillagan kom hér í þingið urðu strax miklar deilur í samfélaginu og á þingi, en henni var haldið til streitu.

Þá fór í gang áskorun, 50 þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun til hæstv. ríkisstjórnar um að hún leggi tillöguna til hliðar og beri áframhaldið undir þjóðina. Og rúmlega 80% þjóðarinnar vilja fá að segja eitthvað um það hvernig eigi að fara með þessa tillögu.

Hér erum við búin að ræða þetta mál í góðri sátt undanfarna daga. Það tókst að róa málið niður eftir að ástandið í þinginu var orðið óþægilegt fyrir alla hér. En síðan er gripið til þess ráðs að halda okkur hér á næturfundi til þess að ræða málin og svo heitið getið án þátttöku stjórnarliða. Ég vil spyrja hv. þingmann af hverju stjórnarliðar og hæstv. ríkisstjórn ákveða að fara þessa leið. Hvaða hagsmuni telur hv. þingmaður að verið sé að verja með því að leggja til að öllu ferlinu verði slitið og að halda upplýsingum frá þjóðinni um hvaða hugsanleg niðurstaða hefði getað fengist ef við hefðum haldið ferlinu áfram.