143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Það er alveg makalaust að hæstv. ráðherrar séu ekki í salnum, sérstaklega hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem ekki eru löglega afsakaðir eins og hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir sem er erlendis sem og hæstv. forsætisráðherra. Það er búið að kalla eftir því í langan tíma, fyrst í miklum rólegheitum. Svo komu þeir askvaðandi um sexleytið til að greiða atkvæði um lengd þingfundar en létu ekki svo lítið að vera við umræðuna í kjölfarið. Þau eru varla öll að sinna skyldustörfum að kvöldi og það hefur þá kannski verið eitthvað sem hefði mátt víkja fyrir umræðum í þinginu.

Ég tek undir kröfur flokkssystkina minna og ætlast til þess að þegar þingflokksformaður VG og formaður Samfylkingarinnar halda hér ræður (Forseti hringir.) verði hæstv. ráðherrar á staðnum enda hafa þeir haft góðan fyrirvara.