143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna sem var allt of stutt. Hún fór ágætlega yfir hina hörðu Heimssýnarlínu. Formaður Heimssýnar situr á þingi og það er leiðinlegt að hún hafi ekkert blandað sér í umræðuna til að skýra betur þá sýn sem drífur þetta mál áfram.

Hv. þingmaður fór yfir leiðaraskrif og hvernig menn fögnuðu fyrir fram niðurstöðunni. Það var eins og hin þinglega meðferð væri ekki svo mikilvæg, það væri búið að ganga frá þessu, málið væri frágengið, nú væri bara að drífa það í gegn. Við hv. þingmaður erum búnar ásamt fleiri þingmönnum að fara saman í gegnum þessa furðulegu daga í þinginu.

Ég spyr þingmanninn um það sem ég hef rætt undir liðnum um fundarstjórn forseta, að hér eigi málið ekki að fara í nefnd nema samkomulag sé undirritað um það hvernig vinnan í kringum þetta verði í ljósi þess ofstopa sem hefur einkennt meðferð málsins. Augljóslega telja menn sem ekki eru hér aðilar máls innan þingsins þetta frágengið og í gadda slegið. Er ekki ástæða til að við í minni hlutanum höfum varann á varðandi það hvernig við ætlum að hátta samskiptum við meiri hlutann í þessu máli? Er ástæða fyrir okkur til að treysta því að hér verði ekki beitt því ofbeldi sem við höfum orðið vitni að undanfarnar vikur?