143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað full ástæða til að hafa varann á í samskiptum við þessa ríkisstjórn, en um leið held ég að það sé líka mikilvægt að hafa fullt sjálfstraust í þeim samskiptum. Við í stjórnarandstöðunni höfum af því ágæta reynslu að leiða ríkisstjórninni eitt og annað fyrir sjónir, breyta áherslum og snúa málum til betri vegar. Ég vil nefna sérstaklega náttúruverndarlög og afturkallið mikla sem okkur tókst að leiða til betri vegar í góðu samstarfi við hv. formann umhverfis- og samgöngunefndar, Höskuld Þórhallsson.

Það sem ég hefði áhyggjur af í sporum hæstv. ríkisstjórnar eftir þetta sögulega klúður og fylgið sem hrynur af svo hratt að maður hefur varla við að fylgjast með eru næstu skref. Ég er þá ekki að tala um Evrópusambandsmálin, heldur til að mynda tillögur um skuldaniðurfellingar, hvernig á þá að fara með PR-málin og hvernig á að kynna þetta fyrir þjóðinni, reiknivélarnar og öll heimsmetin í upplýsingatækni og hvað þetta allt saman heitir þegar menn eru greinilega í þeirri stöðu að þurfa að endurskoða það hverjir leggja línurnar með upplegg í fjölmiðlum, hvenær málin eru sett til þingsins o.s.frv. Síðasta viðfangsefnið sem er innkoma Evrópusambandsslitatillögunnar er fallistaverkefni í pólitík. Það ætti eiginlega að rata í sögubækurnar sem dæmi um hvernig á ekki að gera þetta.

Í sporum ríkisstjórnarinnar mundi ég hafa áhyggjur af því þegar næstu stóru mál koma að þannig verði um þau búið að einhver hafi trú á því að það sé yfir höfuð fólk með fullum fimm undir stýri. Trúverðugleikinn er verulega fyrir borð borinn í þessari lotu allri saman.