143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi lota sem við erum núna í miðri, ef svo má að orði komast, sýnir okkur hversu miklu máli skiptir að raddir heyrist í samfélaginu. Sú lota sem hv. þingmaður nefndi kringum fjárlagavinnuna er dæmi um slíkt líka, undirskriftasafnanir skipta máli, útifundir skipta máli, raddir skipta máli hvar sem þær koma fram. Þess vegna skiptir óendanlega miklu máli að almenningur haldi áfram að tala þegar þessi mál eru komin til nefndar, haldi áfram að skrifa, haldi áfram að blogga, stappa og rökræða, halda ræður og skrifa greinar. Fyrst og fremst má fólk ekki láta deigan síga.

Þessi ríkisstjórn er nefnilega svo ferlega vond að það er óendanlega mikilvægt að við sem erum að andæfa þeirri stefnu sem hún stendur fyrir náum að stilla saman strengi. Það snýst ekki bara um þá tillögu sem hér er undir heldur svo ótal mörg önnur mál, þessi skýru skref til hægri í áttina til aukinnar misskiptingar, aukins ójafnræðis og aukinnar hægri stefnu í samfélaginu, fautaskapur og yfirgangur, því miður í allt of mörgum efnum, að tala (Forseti hringir.) meira og hlusta minna eins (Forseti hringir.) og við höfum oft séð. Þess vegna skiptir máli að (Forseti hringir.) gefa ekki eftir og halda (Forseti hringir.) áfram hvernig sem allt veltist og fer.