143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að skoða þetta út frá því að helmingur umræðunnar, þegar menn komust í umræður hvort sem var um ESB eða annað, hefur farið í að menn rifja upp fyrri ríkisstjórn í staðinn fyrir að reyna að koma með eigin stefnumál. Það er einmitt það sem hefur verið kallað mikið eftir þegar menn segja: Hafið þið eitthvert plan, hvert ætlið þið að stefna? Menn hafa kannski ekki komist lengra en að segja: Við ætlum að reyna að stefna að því sem eru skilyrði Evrópusambandsins fyrir því að við getum orðið þar aðilar, þ.e. að ná aga í ríkisfjármálum, ná niður skuldum o.s.frv.

Ég er með minnisblaðið sem fylgdi sem viðauki I með skýrslunni. Þar er talað um stað umsóknar Íslands um aðild að ESB. Þar er kafli þar sem í raunveruleikanum er komist að þeirri niðurstöðu að sérlega vel hafi verið staðið að aðildarvinnunni í framhaldi af umsókninni, að það ferli allt hafi verið til fyrirmyndar. Af því við erum að tala saman hér tveir fyrrverandi ráðherrar langar mig að spyrja annars vegar að því sem ég spyr gjarnan að: Var einhver aðlögun í hv. umhverfisráðuneytinu, sem afleiðing af aðildarumsókninni? Hins vegar: Var ráðherrann með pólitískt inngrip í ferlana þegar verið var að bera saman í sambandi við rýniskýrslur varðandi aðildarumsóknina?

Það sem mér fannst heillandi við þessa vinnu var að menn pössuðu sig á því að vera ekki með pólitískar íhlutanir í vinnuna á þessu stigi heldur reyndu að kalla fram þverpólitíska vinnu, þverfaglega og þverpólitíska, til þess að kalla fram samningsmarkmið og þær kröfur sem ætti að gera í samningsviðræðum við Evrópusambandið.

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram (Forseti hringir.) vegna þess að menn hafa alltaf látið í það skína (Forseti hringir.) að þarna hafi verið tilteknir hópar (Forseti hringir.) sem vildu vinna Íslandi (Forseti hringir.) eitthvað illt.