143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér hefur alltaf fundist umræðan vera ámátleg um aðlögunarviðræður eða aðildarviðræður; þær óteljandi ræður sem fluttar hafa verið í ræðustóli Alþingis sem snúast um það hvort þetta sé aðlögun eða ekki. Mér finnst þetta vera meira eins og einhvers konar orðhengilsháttur en raunveruleg umræða um innihald. En því er fljótsvarað að því er varðar það ráðuneyti sem ég stýrði í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar voru sett samningsmarkmið og unnið af trúmennsku í þágu bestrar mögulegrar niðurstöðu fyrir Ísland. Það var það viðfangsefni sem þingið sendi áfram til okkar. Mér finnst það líka mikilvægt þegar við erum að tala um möguleika og ómöguleika að ef þjóðin eða þingið felur framkvæmdarvaldinu eitthvert verkefni þá ber framkvæmdarvaldinu að framkvæma það verkefni. Framkvæmdarvaldið er ekki í stöðu til að hafa skoðun á því ef skilaboðin frá þjóðinni gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu eða þinginu í gegnum þingsályktun eða lagasetningu ef þar er um skýra leiðsögn að ræða. Það er enginn ómöguleiki í því ef ráðherra situr uppi með það að löggjöfin hafi ekki verið honum að skapi. Honum ber einfaldlega að fara að löggjöfinni. Það gildir það sama þarna. Þarna fær ráðherra hvers málaflokks verkefni í hendurnar sem honum ber að leiða til lykta með bestu fáanlegri niðurstöðu að leiðarljósi fyrir Ísland og þegar maður ræðir um málaflokka eins og umhverfis- og náttúruverndarmál þá gerir maður það auðvitað líka með faglega sýn þess málaflokks að leiðarljósi. Í mínum huga var þetta aldrei nokkurn tíma flókið. Þó að ég sæi fyrir mér að Íslandi væri betur borgið utan sambandsins en (Forseti hringir.) innan þess þá fannst mér að þjóðin ætti rétt á tveimur kostum og þeir ættu báðir að vera eins góðir og hægt væri.