143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir að klukkan byrjaði ekki að ganga fyrr en þeir ráðherrar kæmu í sal sem ég óskaði fyrr í dag eftir að kæmu til fundarins. Ég óskaði eftir því við atkvæðagreiðslu kl. 18 að tilteknir ráðherrar, þar á meðal formenn stjórnarflokkanna, yrðu viðstaddir ræðu mína í nótt. Ekki voru gerðar athugasemdir og menn gengu til atkvæða um lengd þingfundar á þeim grundvelli.

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður hefur orðið.)

Ég óskaði eftir því að formenn stjórnarflokkanna og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins væru hér til að hlýða á mál mitt. Það voru þeir sem ákváðu að hér yrði þingfundur. Þeim ber að sækja þingfund. Þetta var tekið skýrt fram úr ræðustól og engar athugasemdir gerðar. Ég ítreka að ég geri kröfu til að forseti gangi eftir því að ráðherrarnir komi hér í sal.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að gera mannamun með þessum hætti. Forseti hefur áður stöðvað þingfund og gert ráðstafanir til þess að kalla eftir viðveru ráðherra. Hér er þetta ítrekað sagt með löngum fyrirvara. Er það í alvöru þannig að bara sumir þingmenn fái sérþjónustu af hálfu virðulegs forseta? (RR: Þetta er nú ekki sanngjarnt. …) Hvernig ber að túlka þessar aðstæður? (Gripið fram í.)

Ég óskaði eftir því að tilteknir forsvarsmenn og ábyrgðarmenn þessa máls yrðu við ræðu mína. Ég lét vita að ég væri ekki kominn á mælendaskrá þannig að þeir gætu vitað af því að ég kæmist að í nótt.

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður kom erindum sínum á framfæri en honum er það ljóst eins og forseta að þeir hæstv. ráðherrar sem hann óskaði eftir að væru hér eru ekki viðstaddir. Hv. þingmaður hefur orðið.)

Er það afstaða virðulegs forseta að brjóta áratugalanga þingvenju um að ráðherrum beri að koma ef forustumenn stjórnarandstöðu óska eftir nærveru ráðherra í stórum málum? Er forseti með öðrum orðum að segja að hann sé búinn að leggja af þá þingvenju? Athugasemdalausa þingvenju (Gripið fram í: Það má alltaf gera …) til áratuga? (Gripið fram í.)

Við upplifðum það fyrir nokkrum dögum að forseti gerði hlé og gerði ráðstafanir til að kanna nærveru ráðherra þegar þess var óskað. Nú er þetta gert með löngum fyrirvara vegna þess að þá var gerð athugasemd við að ekki væri gætt fyrirvara. Nú var það gert, ítarlegur fyrirvari hafður á málinu. Allir vissu að hverju þeir gengu, margbúið að ítreka það.

Ég verð þá bara að standa hér.

Hér er verið að brjóta áratugalanga þingvenju sem síðast var staðfest af forseta fyrir tveimur vikum og er algjörlega með ólíkindum. Ég get því miður ekki haldið áfram ræðu minni þannig að ég verð bara að standa hér. Ég hlýt að gera ráð fyrir því að forseti geri ekki mannamun og tilkynni þá á þingflokksformannafundi ef hann hyggst breyta þingvenju sem hefur staðið áratugum saman. Það hefur hann ekki gert og ég ítreka þá kröfu mína að forsætisráðherra og fjármálaráðherra, ábyrgðarmenn þessa máls og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem ég hugðist eiga hér orðastað við, komi í þinghúsið. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti getur lamið í bjölluna eins og honum þóknast.

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður hefur lokið máli sínu.)

Mér þykir ástæða til að vekja athygli á því að forseti er með þessu að brjóta áratugalanga þingvenju. Hann gengur á bak skýrs fordæmis sem hann sjálfur setti fyrir stuttu og hann hagar málum hér þannig að stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) er ábyrgðarlaus af þeirri dagskrá sem forseti kýs að raða hér niður. Það er engin leið að tryggja að ábyrgðarmenn (Forseti hringir.) stjórnarfrumvarpa séu hér til að svara ef þeir kjósa að hunsa þingið.