143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki langt síðan ég sat í þessum sal og varð vitni að því þegar hæstv. forseti gerði hlé á þingfundi vegna þess að óskað var eftir því að ráðherra kæmi í salinn. Núna er átta og hálfur tími síðan formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, gerði grein fyrir því að hann vildi eiga orðastað við ráðherra sem hann óskaði eftir að yrðu viðstaddir ræðu hans. Átta og hálfur klukkutími var fyrirvari á þessari ósk.

Hæstv. forseti er hér að gera mannamun og það er til skammar hvernig það er gert. Ef það á að vera þannig er kannski best að hann gefi okkur lista þar sem hann flokkar þingmenn í a, b og c eftir því hverjir fá mestu og bestu þjónustuna og síðan geta hinir gleymt því að óska eftir einhverjum stuðningi forseta (Forseti hringir.) til þess að eiga orðastað við ráðherra.

Þetta er ekki boðlegt (Forseti hringir.) og ég krefst þess að hæstv. forseti svari okkur því hver munurinn sé á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, í þessu tilliti.