143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér er svo brugðið við þessa ákvörðun forseta að ég á varla orð. Þarna finnst mér virðulegur forseti vera að gera það sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór ágætlega yfir, virðulegur forseti gerir mannamun. Hann sýnir ekki formanni Samfylkingarinnar, stærsta stjórnarandstöðuflokksins í þinginu, þá virðingu sem honum ber.

Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál og ég spyr virðulegan forseta hvort hann hafi ekki örugglega farið að ósk hv. þingmanns og kallað til þá sem hann bað um. Það er búið að ítreka þessa ósk mörgum sinnum í dag. Virðulegur forseti hlýtur að hafa heyrt hana og ég vænti þess að hann hafi beðið ráðherrana og krafist þess að þeir yrðu í þingsal.

Þeir eru hins vegar ekki hér. Er það vegna þess að þeir gegna ekki virðulegum forseta eða var ekki beðið um að þeir kæmu hingað? Mér finnst að virðulegur forseti verði að útskýra betur hvernig stendur á þessari stöðu hér.