143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvað er að gerast hérna hvað varðar hæstv. forseta. Ég sem gegndi þessu embætti um tíma og hef setið í þinginu nokkur ár hef aldrei orðið vitni að því að forseti hafi ekki að minnsta kosti sagt: Ég mun gera ráðstafanir til að láta viðkomandi aðila vita að nærveru þeirra sé óskað.

Ég hef aldrei fyrr heyrt að það hafi ekki verið sagt. Síðan hefur verið sendur aðstoðarmaður til að láta vita af því.

Við höfum margrætt þetta. Við höfum reynt að standa saman um að kjósa sameiginlega forseta þingsins og ræddum það oft á síðasta þingi. Stundum var kvartað yfir því af stjórnarmeirihlutanum að forsetinn gengi erinda minni hlutans, og minnt á að forseti væri forseti þingsins en ekki forseti ríkisstjórnarinnar. En hér verðum við vitni að því að hæstv. forseti velur ófriðinn. Ég hef á tilfinningunni að hæstv. forseti sé í bullandi vandræðum með stjórnarformenn þessara tveggja flokka og ráði ekkert við þá, það sé ástæðan.

Hér kemur annar formaðurinn, (Forseti hringir.) hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, og opnar á að leysa þetta mál en framsóknarmenn koma ekki neitt, gefa ekki nokkurn skapaðan hlut upp í umræðunni nema að hæstv. utanríkisráðherra segir: (Forseti hringir.) Það er hugsanlegt að gera eitthvað einhvern tíma einhvern veginn.

Hæstv. forseti ræður ekkert við þetta. (Forseti hringir.) En það er lítilmótlegt að láta það bitna á stjórnarandstöðunni einni.

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)