143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef hingað til dáðst að hæstv. forseta fyrir það hvernig hann hefur haldið utan um þinghaldið. Málið fór vel af stað í vikunni. Það var rætt í dagsbirtu, við ræddum það málefnalega og menn geta ekki sagt annað en að stjórnarandstaðan hafi haldið uppi málefnalegum málflutningi.

Síðan varð í dag algerlega augljóst hver hefur tekið völdin í þinginu. Það er ekki forseti þingsins sem hefur þau núna, það er þessi ríkisstjórn. Menn ákveða með engum fyrirvara að gera okkur það að taka hér kvöldfund en ráðherrarnir sleppa, þurfa ekkert að sitja hér og þurfa ekkert að tala við okkur. Þeir hafa engan áhuga á því, þeir hafa sagt það.

Átta og hálfum tíma fyrr var gefin vísbending um að formaður Samfylkingarinnar, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, vildi eiga orðastað um þetta stóra mál við forustumenn stjórnarflokkanna og forseti fer bara í störukeppni við hann. Þetta er (Forseti hringir.) ekki boðlegt. Þetta er vandræðalegt (Forseti hringir.) fyrir hæstv. forseta og þetta er vandræðalegt (Forseti hringir.) fyrir þingið. Forsætisnefnd þarf að taka upp með hvaða hætti samskipti forseta við stjórnarandstöðuna eiga að vera áfram í vetur og á þessu kjörtímabili og hvernig samstarfið á að vera milli forustumanna stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar. Ég lít svo á að hér og nú hafi öllu þessu þingi (Forseti hringir.) verið hleypt í uppnám.